Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
20.12.2007 | 17:14
Góð grein um skoðanafrelsi
Jæja, það er heldur betur kominn tími á að taka upp alvöru skrif hér á blogginu á ný eftir einstaka froðusnakk undanfarið.
Ég fer að komast í gírinn aftur eftir aðhaldið í frétta og blogglestri í prófatíð, var að lesa frábæra grein eftir Gulla, vin minn og félaga í UJR, á pólitík.is en hún er eins og töluð frá mínu hjarta J Þó ég sé kannski ekki fullkomlega á sömu skoðun og hann í öllum málum, eins og t.d. um framgang og hlutverk feminisma sbr. eftirfarandi orð hans í greininni: "ég efast um réttmæti aðgerða í nafni feminisma", en ég veit að við stefnum að því sama og við getum því sameinast um markmiðið þó okkur greini ef til vill á um leiðir að því J og það er það sem öllu máli skiptir að vera með markmiðin á hreinu!
Vil einnig benda á nýja bloggsíðu Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík sem er svona rétt að komast í gang og verður örugglega skemmtilegur vettvangur fyrir skoðanaskipti um pólitík
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2007 | 12:48
Óborganleg umræða
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
30.11.2007 | 14:49
Stöðvum ofbeldi gegn konum
Við í UJR vorum að senda frá okkur ályktun, ákvað að lauma henni hérna inn - annars er bloggbindindið enn í fullu gildi!
Góðar stundir
Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík (UJR) lýsa yfir eindregnum stuðningi við 16
daga átak gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur yfir um þessar mundir. Markmið
átaksins er að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem
mannréttindabrot, en það veldur milljónum kvenna andlegu og líkamlegu
heilsutjóni á ári hverju og hindrar eðlilega og nauðsynlega þátttöku þeirra
í samfélaginu. Mikill fjöldi heimsókna og tilkynninga til Stígamóta,
Kvennaathvarfsins og barnaverndaryfirvalda á undanförnum árum sýnir að
átakið eigi ekki síður brýnt erindi á Íslandi en annars staðar.
Í ár leggur átakið sérstaka áherslu á að stjórnvöld grípi til aðgerða gegn
mansali, sem á rót sína meðal annars að rekja til vaxandi kynlífsiðnaðar á
Vesturlöndum og ber Ísland, líkt og aðrar vestrænar þjóðir, mikla ábyrgð við
að stemma stigu við slíku.
Samhliða átakinu fer nú fram undirskriftasöfnun fyrir áskorun til
stjórnvalda á vefnum http://www.humanrights.is um að grípa til aðgerða gegn
mansali og hvetur UJR alla til að kynna sér hana og taka þátt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.11.2007 | 16:31
Jæja, er farin í blogg bindindi fram yfir próf ;)
Í leiðinni langar mig að hvetja ykkur til að kynna ykkur og kvitta undir þessa áskorun til stjórnvalda: http://www.humanrights.is/undirskirftir
27.11.2007 | 11:03
Egill ekki alsaklaus!
Ég verð að segja að það kemur mér ekkert rosalega á óvart að feministar ákveði að sniðganga Silfur Egils. Þó ég haldi upp á Silfrið þá verð ég að viðurkenna að mér finnst Egill ekki alsaklaus af ásökunum Katrínar Önnu, hann hefur ekki verið sá duglegasti að fá konur til að mæta í þættina hjá sér í gegnum tíðina og undanfarið hefur hann staðið sig sérstaklega illa. Egill hefur farið mikinn gegn feministum á bloggsíðu sinni nú í haust og hann virðist líka sjaldan kalla á konur í þáttinn nema að hann ætli sér að ræða um tiltekin "kvenna" mál, líkt og í þættinum nú á sunnudaginn en þá virtist hann fá Sigríði Andersen og Oddnýju Sturludóttur einungis í nektardansstaða umræðuna og þegar henni var lokið máttu þær gjöra svo vel að víkja fyrir körlum.
Ég held svei mér þá að feministinn í mér sé vaknaður af værum blundi fáfræði og fordómar í garð feminista tröllríða bloggheimi þessa dagana - það er kominn tími á stórsókn til varnar feminisma!
Ég ætla nú samt að reyna að halda í mér eins og ég get fram yfir próf
Konur sniðganga Silfrið í mótmælaskyni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.11.2007 | 18:18
Skuldug offita uppskrift að hamingjunni?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 14:40
Tungumál í takt við tíðarandann
Ég settist fyrir framan tölvuna til að skrifa grein um málefni innflytjenda en eftir að hafa vafrað stutta stund á netinu, fann ég mig knúna til að mæla með frumvarpi Steinunnar Valdísar um að finna nýtt heiti á embætti ráðherra. Þetta er mál sem ég hefði fyrirfram talið frekar einfalt og grunaði ekki að myndi vekja upp slíkan ágreining og raun bar vitni. Bloggheimur logar í umræðum um þetta frumvarp, margir sem eru á móti telja þetta léttvægt mál en það er ekki að sjá á skrifum þeirra þar sem þeir eyða miklu púðri í að gagnrýna það. Raddir heyrast um að rangt sé að sóa skattpeningum almennings í smámál af þessu tagi en eru það ekki frekar þeir sem tefja þetta og þrástagast á móti þessu sem eru að sóa tíma og almanna fé? Ég hvet þá sem telja þetta vera smámál að velja sína sigra, hleypa þessu athugasemdalaust í gegn og spara krafta sína fyrir mikilvægari mál. Það er auðvitað afstætt hvaða mál við teljum léttvæg, en staðreyndin er sú að fyrir Alþingi fara mál sem eru eins ólík að umfangi og efni og þau eru mörg en þau eiga það sameiginlegt að þeim þarf að breyta með lögum. Ráðherra er bæði getið í almennum lögum og stjórnarskránni, á þessu kjörtímabili á að fara í heildar endurskoðun á stjórnarskránni og er því tilvalið að leggja þetta fram núna og láta þetta mál fljóta með í þeirri vinnu.
Herrar mínir og frúr
Hér er um táknrænt mál að ræða sem snertir grunn kvennabaráttunnar, rætur karlaveldisins liggja djúpt í menningu okkar og stundum er nauðsynlegt að snerta heilög vé til að vekja almenning til umhugsunar og hrófla við stöðnuðu kerfi. Samkvæmt orðabók Menningarsjóðs merkir orðið herra tvennt, annars vegar titil karlmanns og hins vegar húsbónda eða yfirmann. Ljóst er að síðarnefnda merkingin er mörkuð af þeim tíma þegar aðeins karlar gengdu yfirmannsstöðum. Bent hefur verið á að ekki hafi Vigdís Finnbogadóttir reynt að breyta titli sínum þegar hún var forseti og að Steinun Valdís hafi ekki gert athugasemdir við það á sínum tíma að vera kölluð borgarstjóri, þó það væri karlkynsorð og að hún tali því í mótsögn við sjálfan sig. Þetta finnst mér ekki hægt að leggja að jöfnu við þessa umræðu þar sem það er tvennt ólíkt að ræða um breytingar til að koma í veg fyrir kvenkyns ráðamenn þurfi að titla sig sem herra og því að breyta þurfi karlkyns samheitum eins og forseti, feministi eða heitum sem enda á maður og -fræðingur. Við erum jú öll menn, kvenmenn og karlmenn, mannkynið sjálft svo karlkyns orð geta átt við um allar manneskjur þó auðvitað sé æskilegt að hafa kyn orða í huga við nýmælagerð heita sem bæði kyn munu bera.
Íslenskan er lifandi tungumál
Ég átta mig ekki alveg á rót þessarar öflugu andspyrnu gegn þessu, ekki hefur borið á slíku þegar aðrar stéttir hafa tekið sig til og breytt starfsheitum í takt við breyttar forsendur eins og þegar karlkyns flugfreyjur urðu flugþjónar og skúringakona varð ræsititæknir svo fátt eitt sé nefnt. Tungumálið er ekki meitlað í stein og íslenskan er sem betur fer lifandi tungumál. Við hljótum öll að viðurkenna að áhrifa feðraveldis hefur í gegnum aldirnar haft áhrif á þróun tungumálsins og heitið ráðherra er skýrt merki þess frá þeim tíma sem nútímastjórnkerfi okkar byggðist upp. Ég leyfi mér að fullyrða að ef við stæðum frammi fyrir því í dag að leita að nýyrði yfir æðsta ráðamann þjóðarinnar þá yrði heitið ráðherra ekki fyrir valinu. Frá því að þessu embætti var gefið núverandi heiti hefur þjóðin gengið í gegnum menningarlega byltingu sem kollvarpað hefur viðhorfum okkar og hugmyndum um jafnrétti og stöðu kynjanna, því er ekkert annað en eðlilegt að tungumálið þróist með tíðarandanum og að fundið sé nýtt heiti í takt við hann. Það eru ekki aðeins viðhorfin sem hafa breyst heldur stöndum við hreinlega frammi fyrir nýrri samfélagsmynd þar sem jafnrétti kynjanna er lögbundið og það kallar á þessar breytingar sem frumvarpið mælir fyrir.
En hvað á að koma í staðinn?
Íslenskan er fallegt og gegnsætt mál og auðvelt hefur reynst að smíða nýyrði, það ætti því að vera leikur einn og skemmtilegt verkefni fyrir þjóðina að finna nýtt heiti sem allir geta sammælst um. Ég hef verið að leita að orði með svipaða merkingu og orðið ráðþjónn (sem mér finnst ekki alveg nógu gott) því hlutverk ráðamanna í lýðræðisþjóðfélagi er jú að vinna í þjónustu við land og þjóð. Orðið ráðherra er óþarflega valdbjóðandi og endurspeglar gamaldags hugmyndir um vald og á illa við um valdhafa í lýðræðislegu þjóðfélagi þar sem hinir eiginlegu valdhafar eru þjóðin sjálf. Margar góðar tillögur hafa komið fram í umræðu síðustu daga eins og heitin ráður, ráðandi, ráðgjafi og ráðseti, allt eru þetta einföld, gegnsæ og þjál orð en ég er einna hrifnust að heitinu ráðseti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.11.2007 | 13:36
Opinn fundur um skólagjöld, sem enginn má missa af!
Gestir fundarins eru:
Ásgeir Runólfsson, stjórnarmaður í UJR og fyrrv. framkvæmdastjóri Stúdentaráðs HÍ,
Einar Már Sigurðarson, varaformaður menntamálanefndar Alþingis
og Valgerður Bjarnadóttir, fulltrúi í Háskólaráði Háskóla Íslands.
Fundarstjóri:
Guðrún Birna le Sage de Fontenay, varaformaður UJR.
Koma svo og fjölmenna!
Nú er ekki seinna vænna að vakna og mótmæla fyrirhuguðu álveri í Helguvík! Til að knýja það áfram þá þarf að virkja jarðvarmann á Ölkelduhálsi og Þjórsárver - og það er varla nóg miðað við kröfuna í vor um stækkun í Straumsvík. En við verðum að fara af stað núna strax til að vera ekki of sein líkt og gerðist með Kárahnjúkavirkjun - mótmælagangan hans Ómars var því miður of sein á ferð, en nú höfum við tækifæri!
Af hverju liggur svona á? að flýta sér að virkja þessar náttúruperlur með óafturkræfum afleiðingum fyrir ÁLVER, hér í nágrenni höfðuborgarinnar, þar sem er bullandi þensla og nóga atvinnu að fá - þetta meikar bara ekki sens
Annars ætlaði ég nú ekki að rekja þetta mál hér í þaula heldur benda ykkur á frábæra grein á blogginu hans Dofra um málið, sem ég hvet alla til að lesa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2007 | 18:34
Verðeftirlit til að hækka verð sem mest?
Riddarar bónusfeðga geysast um matvöruverslanir bæjarins vopnaðir skanna, þegar þeir koma í hús tekur Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, við kyndlinum og umsvifalaust lækkar verð - blásnauðum neytendum til hagsbóta
Bestu vinir litlamannsins ....eða hvað?
Því er haldið fram að verð í Bónus og Krónunni sé hærra seinni part dags þegar ekki er von á verðkönnunum og í fréttunum í gær var talað um að þá væri "reglan" sú að Bónus væri yfirleitt 1 kr. lægri en Krónan. Þessar niðurstöður passa engan veginn við yfirlýsingar verslananna um að verðbreytingar séu allan daginn í gangi því þær keppist um að vera lægri en hin, því ef svo væri ætti verðið að vera lægra seinni partinn.
Er um þögult samþykki að ræða milli þessara tveggja aðila? Að Krónan setji viðmiðið, svo fari starfsmenn Bónus á stúfana, komi til baka með verð úr Krónunni ofl. búðum og þá hækki Bónus sig í samræmi við Krónuna - en gæti þess að vera 1 kr. lægri? Það hlýtur að vera óþarfi fyrir þá að vera meira en 1 kr. undir öðrum - svo þessi verðsamanburður marg borgar sig! Allir græða! ...nema neytendur
Persónulega er mér nokkuð sama hvað vörur í 10-11 og 11-11 búðunum kosta þar sem ég get sjálfri mér um kennt ef ég þarf að versla útan opnunartíma Bónus og Krónunnar og greiði þar með hærra verð fyrir lengri opnunartíma, staðsetningu eða hvað það nú er. En það skiptir öllu máli að virk samkeppni vari milli Krónunnar og Bónus!
Einu sinni var rökstuðningur fyrir háu vöruverði 11-11 og 10-11 búðanna sá að maður borgi hærra gjald fyrir lengri opnunartíma, en mér brá í brún þegar ég var hjá ömmu minni í sveitinni og kom að lokuðum dyrum 11-11 á Hvolsvelli rétt eftir kvöldmat. En þar sem þetta er eina búðin í nánd og því í einokunarstöðu kemst hún upp með að vera aðeins opin til 20 á kvöldin! En ekki til 23 eins og nafnið gefur til kynna. Það kemur mér því lítið á óvart að þeir séu núna farnir að rukka næturálag hér í borginni. En hver eru þá rökin fyrir þessu himinháa verði? minna úrval? morkið grænmeti? eða óhagræðið af því að halda of mörgum búðum opnum?
Samkeppniseftirlitið hvetur fólk til að senda ábendingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)