15.10.2007 | 22:45
Úrræðaleysi heilbrigðiskerfisins kristallast í máli Örnu
Það var átakalegt að sjá umfjöllun Kastljóss um lystarstolssjúklinginn Örnu, foreldrar hennar komu og sögðu sögu sína en ég missti því miður af heimildarmyndindinni Lystin að lifa sem sýnd var í gærkvöldi og gerð hefur verið um ástand hennar.
Foreldrar hennar sögðu frá því að það var ekki fyrr en 1 og hálfu til 2 árum eftir að þau fóru að leita úrræða fyrir Örnu að hún fékk innlögn á BUGL. Einstaklingar með átraskanir þurfa að vera mjög langt leiddir til að fá almennilega aðstoð í kerfinu og heilbrigðisyfirvöld bjóða ekki uppá langtíma meðferðarúrræði fyrir átröskunarsjúklinga.
Ég held að þetta sé einmitt lýsandi fyrir almennt úrræðaleysi í samfélagsþjónustu okkar en eins og staðan er í dag þá er mynstrið svolítið þannig að ekki er gripið inní fyrr en skaðinn er skeður. Svona er statt á mörgum sviðum í heilbrigðis, mennta og félagslegum úrræðum á Íslandi í dag. BUGL hefur verið efst á baugi í umræðunni síðasta árið en þar hefur þetta verið sérstaklega áberandi þar sem ekki einusinni hefur verið pláss fyrir mjög alvarlega veika einstaklinga, sem hreinlega eru að berjast fyrir lífi sínu - en vandi BUGL er því miður ekki einangrað tilvik heldur er þetta útbreiddari vandi í okkar kerfi.
Mörg dæmi má taka á heilbrigðissviði þar sem skortur er á fyrirbyggjandi verkefnum til að stuðla að almennu heilbrigði, margsannað er að tengsl eru milli offitu, hreyfingarleysis og óheilbrigðra lífshátta, og margra sjúkdóma. Í menntakerfinu endurspeglast þetta í langri bið hjá greiningarstöð en með því að koma fyrr til móts við börn með sértæka námsörðugleika eða þroskahamlanir þá væri hægt að auka lífsgæði og framfarir til muna - en þroski barns á einu ári er stórkostlegur í samanburði við eldri einstaklinga svo tíminn skiptir þarna sérstaklega miklu máli. Fjölmörg dæmi þessa einkennir einnig félagsleg úrræði og má þar nefna sem dæmi aðstoð við fólk í fjárhagsörðugleikum. Jóhanna Sigurðardóttir er sem betur fer komin með fingurinn á það mál og vinnur nú að innleiðingu úrræðis til að fyrirbyggja gjaldþrot fólks, sem hún lagði fyrir ár eftir ár en án árangurs í stjórnarandstöðu. Ég gæti setið hér í allt kvöld og talið upp dæmi en ég læt þetta nægja að sinni.
Öll þessi dæmi bera merki þess að meira og minna allt okkar kerfi er byggt á röngu hugarfari. Skammsýni stjórnmálamanna og skortur á framtíðarsýn virðist einkennandi og ef til vill spilar inní að stjórnmálamenn eiga jú áframhaldandi veru sína í starfi undir því komið að vera endurkjörnir að kjörtímabili loknu og þurfa því að sýna árangur og sanna sig eftir því á skömmum tíma.
Ég er ekki að segja að ég treysti ekki lýðræðinu fyrir því að breyta þessu, en til að knýja fram breytingu þá þarf að koma til vitundarvakning, kjósendur þurfa að vera upplýstari og kalla eftir meiri framtíðarsýn. Það þarf í raun að umbylta öllu kerfinu og hella peningum í forvarnir og fræðslu. Það verður mjög dýrt til skamms tíma og skilar litlu til baka til að byrja með en margborgar sig til lengri tíma litið!
Þrátt fyrir dökka mynd sem ég hef dregið upp held ég að við Íslendingar séum í einstaklega góðri stöðu til að geta stuðlað að vitundarvakningu í gegnum öflugt menntakerfi okka og hafist handa við að bæta við úrræðum í heilsugæslu og félagsþjónustu - en það þarf að hefjast handa.
Ef til vill flokkast þetta undir forræðishyggju, en forræðishyggja í formi fræðslu og hjálp til sjálfshjálpar er mér mjög að skapi
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.10.2007 kl. 12:30 | Facebook
Athugasemdir
Myndin verður endursýnd kl. 14:40 á sunnudaginn þannig að þér gefst annað tækifæri til að sjá þessa athyglisverðu mynd...
Figaro (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 13:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.