26.11.2007 | 18:18
Skuldug offita uppskrift að hamingjunni?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2007 | 14:40
Tungumál í takt við tíðarandann
Ég settist fyrir framan tölvuna til að skrifa grein um málefni innflytjenda en eftir að hafa vafrað stutta stund á netinu, fann ég mig knúna til að mæla með frumvarpi Steinunnar Valdísar um að finna nýtt heiti á embætti ráðherra. Þetta er mál sem ég hefði fyrirfram talið frekar einfalt og grunaði ekki að myndi vekja upp slíkan ágreining og raun bar vitni. Bloggheimur logar í umræðum um þetta frumvarp, margir sem eru á móti telja þetta léttvægt mál en það er ekki að sjá á skrifum þeirra þar sem þeir eyða miklu púðri í að gagnrýna það. Raddir heyrast um að rangt sé að sóa skattpeningum almennings í smámál af þessu tagi en eru það ekki frekar þeir sem tefja þetta og þrástagast á móti þessu sem eru að sóa tíma og almanna fé? Ég hvet þá sem telja þetta vera smámál að velja sína sigra, hleypa þessu athugasemdalaust í gegn og spara krafta sína fyrir mikilvægari mál. Það er auðvitað afstætt hvaða mál við teljum léttvæg, en staðreyndin er sú að fyrir Alþingi fara mál sem eru eins ólík að umfangi og efni og þau eru mörg en þau eiga það sameiginlegt að þeim þarf að breyta með lögum. Ráðherra er bæði getið í almennum lögum og stjórnarskránni, á þessu kjörtímabili á að fara í heildar endurskoðun á stjórnarskránni og er því tilvalið að leggja þetta fram núna og láta þetta mál fljóta með í þeirri vinnu.
Herrar mínir og frúr
Hér er um táknrænt mál að ræða sem snertir grunn kvennabaráttunnar, rætur karlaveldisins liggja djúpt í menningu okkar og stundum er nauðsynlegt að snerta heilög vé til að vekja almenning til umhugsunar og hrófla við stöðnuðu kerfi. Samkvæmt orðabók Menningarsjóðs merkir orðið herra tvennt, annars vegar titil karlmanns og hins vegar húsbónda eða yfirmann. Ljóst er að síðarnefnda merkingin er mörkuð af þeim tíma þegar aðeins karlar gengdu yfirmannsstöðum. Bent hefur verið á að ekki hafi Vigdís Finnbogadóttir reynt að breyta titli sínum þegar hún var forseti og að Steinun Valdís hafi ekki gert athugasemdir við það á sínum tíma að vera kölluð borgarstjóri, þó það væri karlkynsorð og að hún tali því í mótsögn við sjálfan sig. Þetta finnst mér ekki hægt að leggja að jöfnu við þessa umræðu þar sem það er tvennt ólíkt að ræða um breytingar til að koma í veg fyrir kvenkyns ráðamenn þurfi að titla sig sem herra og því að breyta þurfi karlkyns samheitum eins og forseti, feministi eða heitum sem enda á maður og -fræðingur. Við erum jú öll menn, kvenmenn og karlmenn, mannkynið sjálft svo karlkyns orð geta átt við um allar manneskjur þó auðvitað sé æskilegt að hafa kyn orða í huga við nýmælagerð heita sem bæði kyn munu bera.
Íslenskan er lifandi tungumál
Ég átta mig ekki alveg á rót þessarar öflugu andspyrnu gegn þessu, ekki hefur borið á slíku þegar aðrar stéttir hafa tekið sig til og breytt starfsheitum í takt við breyttar forsendur eins og þegar karlkyns flugfreyjur urðu flugþjónar og skúringakona varð ræsititæknir svo fátt eitt sé nefnt. Tungumálið er ekki meitlað í stein og íslenskan er sem betur fer lifandi tungumál. Við hljótum öll að viðurkenna að áhrifa feðraveldis hefur í gegnum aldirnar haft áhrif á þróun tungumálsins og heitið ráðherra er skýrt merki þess frá þeim tíma sem nútímastjórnkerfi okkar byggðist upp. Ég leyfi mér að fullyrða að ef við stæðum frammi fyrir því í dag að leita að nýyrði yfir æðsta ráðamann þjóðarinnar þá yrði heitið ráðherra ekki fyrir valinu. Frá því að þessu embætti var gefið núverandi heiti hefur þjóðin gengið í gegnum menningarlega byltingu sem kollvarpað hefur viðhorfum okkar og hugmyndum um jafnrétti og stöðu kynjanna, því er ekkert annað en eðlilegt að tungumálið þróist með tíðarandanum og að fundið sé nýtt heiti í takt við hann. Það eru ekki aðeins viðhorfin sem hafa breyst heldur stöndum við hreinlega frammi fyrir nýrri samfélagsmynd þar sem jafnrétti kynjanna er lögbundið og það kallar á þessar breytingar sem frumvarpið mælir fyrir.
En hvað á að koma í staðinn?
Íslenskan er fallegt og gegnsætt mál og auðvelt hefur reynst að smíða nýyrði, það ætti því að vera leikur einn og skemmtilegt verkefni fyrir þjóðina að finna nýtt heiti sem allir geta sammælst um. Ég hef verið að leita að orði með svipaða merkingu og orðið ráðþjónn (sem mér finnst ekki alveg nógu gott) því hlutverk ráðamanna í lýðræðisþjóðfélagi er jú að vinna í þjónustu við land og þjóð. Orðið ráðherra er óþarflega valdbjóðandi og endurspeglar gamaldags hugmyndir um vald og á illa við um valdhafa í lýðræðislegu þjóðfélagi þar sem hinir eiginlegu valdhafar eru þjóðin sjálf. Margar góðar tillögur hafa komið fram í umræðu síðustu daga eins og heitin ráður, ráðandi, ráðgjafi og ráðseti, allt eru þetta einföld, gegnsæ og þjál orð en ég er einna hrifnust að heitinu ráðseti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.11.2007 | 13:36
Opinn fundur um skólagjöld, sem enginn má missa af!
Gestir fundarins eru:
Ásgeir Runólfsson, stjórnarmaður í UJR og fyrrv. framkvæmdastjóri Stúdentaráðs HÍ,
Einar Már Sigurðarson, varaformaður menntamálanefndar Alþingis
og Valgerður Bjarnadóttir, fulltrúi í Háskólaráði Háskóla Íslands.
Fundarstjóri:
Guðrún Birna le Sage de Fontenay, varaformaður UJR.
Koma svo og fjölmenna!
Nú er ekki seinna vænna að vakna og mótmæla fyrirhuguðu álveri í Helguvík! Til að knýja það áfram þá þarf að virkja jarðvarmann á Ölkelduhálsi og Þjórsárver - og það er varla nóg miðað við kröfuna í vor um stækkun í Straumsvík. En við verðum að fara af stað núna strax til að vera ekki of sein líkt og gerðist með Kárahnjúkavirkjun - mótmælagangan hans Ómars var því miður of sein á ferð, en nú höfum við tækifæri!
Af hverju liggur svona á? að flýta sér að virkja þessar náttúruperlur með óafturkræfum afleiðingum fyrir ÁLVER, hér í nágrenni höfðuborgarinnar, þar sem er bullandi þensla og nóga atvinnu að fá - þetta meikar bara ekki sens
Annars ætlaði ég nú ekki að rekja þetta mál hér í þaula heldur benda ykkur á frábæra grein á blogginu hans Dofra um málið, sem ég hvet alla til að lesa.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2007 | 01:37
Fiskunum fjölgar óðfluga...
Ég hlakka nú bara til að verða 26 ára eftir rúman mánuð ...líst svo askoti vel á laugina 20 til 38 ára ...kannski kominn tími til að demba sér í djúpu ...með sigtið á lofti
Ég | Breytt 7.12.2007 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.11.2007 | 18:34
Verðeftirlit til að hækka verð sem mest?
Riddarar bónusfeðga geysast um matvöruverslanir bæjarins vopnaðir skanna, þegar þeir koma í hús tekur Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónus, við kyndlinum og umsvifalaust lækkar verð - blásnauðum neytendum til hagsbóta
Bestu vinir litlamannsins ....eða hvað?
Því er haldið fram að verð í Bónus og Krónunni sé hærra seinni part dags þegar ekki er von á verðkönnunum og í fréttunum í gær var talað um að þá væri "reglan" sú að Bónus væri yfirleitt 1 kr. lægri en Krónan. Þessar niðurstöður passa engan veginn við yfirlýsingar verslananna um að verðbreytingar séu allan daginn í gangi því þær keppist um að vera lægri en hin, því ef svo væri ætti verðið að vera lægra seinni partinn.
Er um þögult samþykki að ræða milli þessara tveggja aðila? Að Krónan setji viðmiðið, svo fari starfsmenn Bónus á stúfana, komi til baka með verð úr Krónunni ofl. búðum og þá hækki Bónus sig í samræmi við Krónuna - en gæti þess að vera 1 kr. lægri? Það hlýtur að vera óþarfi fyrir þá að vera meira en 1 kr. undir öðrum - svo þessi verðsamanburður marg borgar sig! Allir græða! ...nema neytendur
Persónulega er mér nokkuð sama hvað vörur í 10-11 og 11-11 búðunum kosta þar sem ég get sjálfri mér um kennt ef ég þarf að versla útan opnunartíma Bónus og Krónunnar og greiði þar með hærra verð fyrir lengri opnunartíma, staðsetningu eða hvað það nú er. En það skiptir öllu máli að virk samkeppni vari milli Krónunnar og Bónus!
Einu sinni var rökstuðningur fyrir háu vöruverði 11-11 og 10-11 búðanna sá að maður borgi hærra gjald fyrir lengri opnunartíma, en mér brá í brún þegar ég var hjá ömmu minni í sveitinni og kom að lokuðum dyrum 11-11 á Hvolsvelli rétt eftir kvöldmat. En þar sem þetta er eina búðin í nánd og því í einokunarstöðu kemst hún upp með að vera aðeins opin til 20 á kvöldin! En ekki til 23 eins og nafnið gefur til kynna. Það kemur mér því lítið á óvart að þeir séu núna farnir að rukka næturálag hér í borginni. En hver eru þá rökin fyrir þessu himinháa verði? minna úrval? morkið grænmeti? eða óhagræðið af því að halda of mörgum búðum opnum?
Samkeppniseftirlitið hvetur fólk til að senda ábendingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 7.12.2007 kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.10.2007 | 14:55
Komin í heilan hring...
Ég sagði hér um helgina að við ættum ekki að taka bókina Tíu litlir negrastrákar úr umferð ég var ekki alveg jafn viss í minni sök eftir að hafa lesið grein á blogginu hans Gauta B. Eggerts um endurútgáfu hennar, virkilega gott innlegg í umræðuna.
Eða hvað? Ég tel umræðuna um málið hér á landi eðlilega í ljósi þess að lengi vel, og þegar fyrri útgáfa bókarinnar var í umferð, voru íbúar hér á landi nánast eingöngu af hvítum kynstofni, ferðaðist minna og var því minna meðvitað um möguleg meiðandi áhrif þessarar bókar á aðra. Ég verð að viðurkenna að ég mundi reyndar ekki eftir því hvað bókin var gróf fyrr en ég las um það núna, það litla sem ég man var að maður söng lagið með hárri raust og bros á vör og þá voru eftir sjö, sjö litlir . mesta kappsmálið var að muna hvaða tölustafur kæmi næst en ekkert hugsað út í boðskapinn, þetta lag var fyrir mér meira eins og 10 grænar flöskur, snérist um að læra að telja. En satt er það sem sagt er að boðskapur hennar sé í besta falli enginn, ef til vill myndi engum detta í hug í dag að nota þetta efni í barnabók en sama á við um efnistök ýmissa annarra gamalla barnabóka. Auðvitað endurspegla vinsældir "Negarastrákanna" hvað við vorum komin skamt á veg í umræðu um kynþáttafordóma á þeim tíma og hversu fjarlægir okkur þeir voru en alls ekki fordóma Íslendinga.
Auðvitað þurfum við að vera opin fyrir því að þeir sem reynt hafa misrétti á eigin skinni svíður mun meira undan fordómum en okkur hinum sem t.a.m. vegna litarháttar getum illa sett okkur í spor þeirra, sama á við um baráttu fyrir jafnrétti kynjanna en það er eðlilegt að við konur rekum augun í aðra og fleiri hluti en karlar því við höfum við eigin reynsluheim að styðjast - ég vil samt sem áður ekki trúa að karlmenn vilji baráttu fyrir jafnrétti ekki vel. Við þurfum að hlusta á fólk sem er sárt í þessu máli og taka tillit til þess.
Ég stend samt enn á þeirri skoðun minni að við eigum að hafa fordóma uppi á yfirborðinu og standa vörð um tjáningafrelsið og nýta frekar tækifæri sem þessi til að uppræta fordóma opinberlega - með orðræðu. Ég held einfaldlega að sú aðferð dugi betur til að ná markmiðinu sem allir ættu að geta sameinast um - að útrýma fordómum. Auðvitað er mikilvægt að setja tjáningarfrelsinu skorður, sérstaklega þegar meiðandi tjáning í ræðu eða riti beinist persónulega að einstaklingum, sem meiðyrði. En ef við förum út í að banna útgáfu bóka eða ritskoða það sem má vera á boðstólum í leikskólum þá verður erfitt að stoppa ...þó ég viðurkenni að ef til þess kæmi þá væru "Tíu litlir negrastrákar" með þeim fyrstu sem kæmu til greina.
Þegar ég las greinina hans Gauta þá skammaðist ég mín í stutta stund fyrir að hafa mælt gegn því að taka bókina úr umferð og settist hér niður til að skrifa af hverju, en þetta varð hins vegar niðurstaðan - ég talaði mig bara í hring og er lent niður á sama stað og þegar ég byrjaði að tjá mig um málið um helgina
Enn eitt dæmi um að við búum ekki í svart hvítum heimi og því gerum við lítið annað en að opinbera fávisku okkar þegar við fullyrðum um hlutina. Þess vegna er ég ávallt opin fyrir því að skipta um skoðun ef ég rekst á ný rök í málum rökræn umræða er grundvöllur lýðræðisins og hún verður fjörugari ef fólk þorir að hafa skoðanir, svo ég mun leggja mitt að mörkum og halda áfram að kasta fram mis ígrunduðum sleggjum því einhversstaðar þarf umræðan að hefjast.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2007 | 19:01
Hjónabandið, réttindi samkynhneigðra og Þjóðkirkjan.
Það hefur mikið verið ritað og rætt síðustu daga um afstöðu Þjóðkirkjunnar til hjónabandsins og "fordóma" hennar í garð samkynhneigðra, inní þá umræðu fléttast síðan deilur um endurskoðun og endurútgáfu Biblíunnar. Ég verð að segja að það hefur komið mér virkilega á óvart hve margir í kringum mig eru algjörlega á öndverðu meiði við mig og mjög heitir þegar kemur að þessu máli. Ég ætla ekki að rekja málið hér því það hafa aðrir gert en mig langar að taka undir með nokkrum bloggurum.
Dofri hefur mikið fjallað um málið síðustu daga og margir hafa kommentað hjá honum og því gaman að lesa og fá öll sjónarmið. Einnig birtist góð grein um málið á Vefritinu á föstudag.
Fyrir mig sem laganema og baráttumanneskju fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju þá finnst mér mikilvægt að við veltum afstöðu kirjunnar fyrir okkur með það í huga að hún hefur stjórnskipulega stöðu hér á landi. Það ætti að gefa okkur leyfi til að gera mun ríkari kröfur til hennar en annarra trúfélaga hvað varðar það að hún mismuni ekki þegnum þessa lands eftir kynferði. Eða að aðskilja fyrir fullt og allt ríki og kirkju.
Ég hef alltaf litið á sjálfan mig sem kristna manneskju og er enn skráð í Þjóðkirkjuna. Ég er hins vegar ekki bókstafstrúar á Biblíuna og ég er alltaf jafn undrandi þegar ég heyri að nú á 21. öldinni sé enn til fjöldi fólks á Íslandi sem lítur á það sem stendur í Biblíunni sem heilagt orð og óskeikult með öllu - en Biblían var nú einu sinni skrifuð af skeikulum mönnum og hefur verið marg ritskoðuð í gegnum tíðina í mis kristilegum tilgangi. Oftast til þess að tryggja völd og festa í sessi samfélagsmýtur sem nútímasamfélag hefur vikið frá fyrir löngu eins og til að mynda að viðhalda kúgun kvenna og útskúfa samkynhneigða.
Ég tek því undir með Dofra sem segir:
Það er ekki undarlegt að viðhorf fólks breytist á 2000 árum. Það er heldur ekki slæmt. En af því að tímarnir breytast og mennirnir með þurfa þeir sem predika hið lifandi orð að láta inntakið í því sem Kristur boðaði vísa sér veginn en ekki orðalag í gömlum skruddum.
Sem og Hauki Loga sem segir:
Alla klassíska texta bera að uppfæra í hæfilegum takt við tíðarandann hverju sinni sé ætlunin að láta fólk taka mark á honum. Þetta þekkja lögfærðingar ágætlega út frá hugmyndum um breytilega skýringu á grundvallarlögum. Frægasta dæmið um slíka texta er sennilega bandaríska stjórnarskráin og Bill of rights sem eru orðnir rúmlega 200 ára gamlir textar sem þó mynda hryggjarstykkið í því sem kalla má vestræna lýðræðishugsun. Þeir standa sem slíkir fyllilega fyrir sínu af þeirri ástæðu að mannfólkið hefur borið gæfu til að túlka textana í takt við tíðarandann hverju sinni en ekki út frá þrælasamfélagi norður Ameríku á átjánduöldinni um það leiti sem þeir voru skrifaðir.
Sem og ummæli Hjörts Magna Fríkirkjuprestsins í Reykjavík um að ekki sé í anda Lútherskrar trúar að dýrka Biblíuna líkt og skurðgoð.
Fyrir uþb 2 árum síðan þá bloggaði ég um að ég væri ekki svo viss um að ég vildi gifta mig eftir kristnum hefðum eða "ganga að eiga" einhvern því ég vildi ekki tengja saman ást og eignarrétt einhvers yfir mér. Í dag er ég samt þeirrar skoðunar að ég myndi vilja gifta mig í krikju þegar þar að kemur en breyta hinum hefðbundnu heitum. Eða jafnvel ganga lengra og fá bara blessun í staðfesta samvist líkt og Katrín Anna (einn af mínum uppáhalds bloggurum þessa dagana) stingur uppá að verði gert mögulegt fyrir gagnkynhneigða
Þó ég geri mér grein fyrir að þjóðkirkjan er að ganga lengra en margar aðrar kirkjur þá er þetta engan veginn ásættanlegt. Misrétti er misrétti, þó í mismunandi miklu mæli sé. Ég er reyndar á því að það sé ekki nóg að leyfa samkynhneigðum að ganga í hjónaband. Ég vil líka að gagnkynhneigðum sé leyft að ganga í staðfesta samvist, enda finnst mér staðfest samvist fallegri en hjónaband. Ástæðan er sú að það er nýtt form sem byggir ekki á kúgun frá fornu fari heldur er frá upphafi byggt á jafnræði og jafnrétti á milli þeirra sem kjósa að staðfesta samvist sína. Sama hversu mikið hugmyndir á bakvið hjónabandið breytast þá er aldrei hægt að taka tilbaka að uppruni þess byggir á eignarétti karla yfir konum og hjónabandið yfirfærlsa á eign dóttur frá föður yfir til eiginmanns. Þess vegna giftast konur en karlar kvænast - þær gefast, þeir eignast konu.
Ekki svo vitlaus hugmynd
En nóg um þetta í bili, þessi umræða fer að verða nokkuð góð - annars finnst mér alltaf voðalega gaman þegar svona bylgja ríður yfir samfélagið og málin eru rökrædd almennilega! Við mættum gera meira af því. Umræður pólitíkusa í fjölmiðlum eiga það til að vera úr takti við raunveruleikann, aðal atriði verða að aukaatriðum og umræðan snýstu um það að klekkja á hinum en ekki að komast að hinu rétta í málinu og skila því ekki miklu - er aðeins morfís keppni með og á móti eftir flokkslínum - eins og heimurinn sé svart/hvítur og mál séu bara annað hvort góð eða slæm
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2007 kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2007 | 01:25
Á að brenna "Tíu litlir negrastrákar"?
Ég hef aðeins fylgst með fjaðrafokinu í tilefni nýrrar útgáfu af Negarastrákarnir nú á dögunum.
Að mínu mati er gott að hafa fordóma uppá borðinu, við eigum ekki að taka Negarastrákana úr umferð, frekar en aðrar bókmenntir sem ekki standast skoðun pólitískrar rétthugsunar. Við eigum einmitt að nota slíkar bækur til að draga fordóma okkar fram í dagsljósið, sem tilefni til að tala um fordóma við börnin okkar og kveða þá niður. Ég fagna því umræðu síðustu daga en ég efast um að nauðsynlegt sé að taka bókina úr umferð.
Ég efast um jákvæð áhrif þess að þagga fordóma niður, eins og á sínum tíma þegar málflutningur Félags íslenskra þjóðernissinna var þaggaður niður. Við þurfum að fá þessar skoðanir upp á yfirborðið svo upplýst, gagnrýnin umræða geti átt sér stað á opinberum vettvangi. Ég held að til séu þó nokkrir í samfélaginu sem deila sömu skoðunum og Hlynur Freyr Vigfússon, fyrrverandi varaformaður fyrrnefnds félags sem dæmdur var fyrir kynþáttahatur árið 2001, en þeir viðra þessar skoðanir kannski ekki nema heima í stofu eða í þröngum hópi og þar fá þær að grassera. Það er mikilvægt að virða tjáningafrelsið og fá þessar skoðanir fram, til að geta kvatt þær í kútinn, sýna fram á að kynþáttafordómar þola ekki nánari skoðun og reyna að ná til þessa fólks með upplýstri umræðu.
Ég held að ef Félag íslenskra Þjóðernissinna hefðu boðið fram í kosningunum 2003, og að þeir hefðu fengið þá athygli í fjölmiðlum sem framboð til alþingiskosnina jafnan fær, hefðu fjölmiðlamenn, aðrir frambjóðendur og upplýst fólk í samfélaginu tekið slaginn við þá og áhrifin hefðu verið að skoðanabræðrum þeirra á íslenskum heimilum hefði fækkað. Ég er ansi hrædd um að í þögninni sem við tók um þessi mál hafi rasismi á Íslandi vaxið og fengið allt of mikið næði til að grassera, og gæti það skýrt að hluta mikið fylgi Frjálslindra í skoðanakönnunum fyrr á þessu ári. Þeir opnuðu gáttina á ný og þeir sem ekki höfðu þorað að viðurkenna opinberlega þessa skoðun sína síðan 2001 stigu fram, umræðan tröllreið þjóðfélaginu og ekki fögnuðu Frjálslindir sama fylgi í alþingiskosningunum í maí - sem er vel
Nú vil ég ekki fullyrða að rangt hafi verið að dæma Hlyn fyrir kynþáttahatur - enda hef ég ekki lesið þann dóm og þekki það mál ekki nógu vel - og ég vil ekki heldur halda því fram að fólk megi segja hvað sem er í nafni tjáningarfrelsis, hversu meiðandi sem skoðun þess er fyrir aðra. Heldur vildi ég bara ítreka mikilvægi skoðanafrelsis fyrir framfarir og vitsmunalega þróun mannkynsins
Að lokum ætla ég að vitna í mann sem útskýrði mikilvægi tjáningarfrelsisins á mun hnitmiðaðri og skýrari hátt en ég:
Ef skoðun er meinað að njóta sín, þá er gervallt mannkynið rænt eign sinni. ...Sé skoðunin rétt, glata menn færi á að hverfa frá villu síns vegar. Sé hún röng, missa menn næstum jafnmikils, þeirrar skýrari skynjunar og fjörmeiri myndar af sannleikanum, sem birtist, þegar sönnu og lognu lýstur saman. ...Við getum aldrei verið viss um, að skoðun, sem við viljum kveða niður, sé röng. Og jafnvel þótt við værum viss, væri bannsetning mesta böl. ...Þær skoðanir, sem við treystum best, hafa það eitt til tryggingar sannleiksgildi sínu, að öllum heimi er frjálst að afsanna þær.
John Stuart Mill, Frelsið bls. 54, 55 og 61.
Ykkur er að sjálfsögðu ávallt velkomið að draga skoðanir mínar í efa og viðra ykkar sjónarmið hér í kommentakerfinu mínu það er svo sannarlega okkur öllum til góðs.
Góðar stundir.
Rætt um negrastráka, svertingja og tíu litlar húsmæður í Alþjóðahúsinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.10.2007 kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.10.2007 | 14:04
Minn staður - mín stund :)
Minn staður - mín stund er á brennslutæki í Laugum. Þar sem það er oft mikið að gera hjá mér þá á ég oft í vandræðum með að finna tíma til að innbyrða fréttaskamt dagsins, ekki tími til að setjast niður í rólegheitunum og lesa blaðið á morgnanna né horfa á fréttir - nema þá kannski þegar ég er háttuð á kvöldin. En ég er með brillíant lausn á þessum vanda, ég tek einfaldlega skammtinn minn út um leið og ég pumpa hjartað (helst 6x í viku) í Laugum
Þetta fer í raun mjög vel saman og ég held að hugurinn sé sérstaklega frjáls og frjór á meðan á líkamsrækt stendur. Yoga og öndunaræfingar ganga að hluta til útá það að beina huganum að líkamanum og andardrættinum til að kyrra hann og hreinsa hann af hugsunum um daglegt amstur. Ég held að líkamsrækt að öðru tagi geti líka þjónað þessu hlutverki eða að minnsta kosti þá finnst mér hugur minn oft miklu skýrari og frjórri á brettinu. Yfir mig hellast hugmyndir af greinum sem mig langar að skrifa eða einhver málefni poppa upp í huga mér sem ég verð að létta af mér á einhvern hátt ég hef oft hugsað með mér að nú ætti ég að vera með blað og blýant og punkta hugmyndirnar niður. Nú á miðvikudagskvöldið þá mætti ég í Laugar til að horfa á Kompás og í auglýsingapásu hljóp ég niður í klefa og náði í blað og blýant stökk svo aftur uppá stigvélina og punktaði niður það sem mér lá á hjarta
Afraksturinn er að finna hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.10.2007 kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)