Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Góður Dagur :)

Já, það hefur svo sannarlega borið til tíðinda í íslenskri pólitík í dag, nýr meirihluti, Dagur orðinn borgarstjóri Smile Þetta eru að sjálfsögðu góð tíðindi fyrir félagshyggjukonu eins og mig, og ég treysti Degi mun betur en Vilhjálmi til að fara yfir klúður síðustu daga og koma á faglegum vinnubrögðum í Ráðhúsinu á ný!

Þó ég fagni myndun nýs meirihluta þá er erfitt að kyngja því að þetta hafi verið Binga að þakka og að honum sé tryggð áframhaldandi seta í borgarstjórn og sem varaformaður Orkuveitunnar! Ég er ansi hrædd um að Dagur og co. megi ekki sleppa honum úr augsýn. Hann var rúinn trausti í þessu REI máli, ekki bara rengdur af minnihlutanum í borgarstjórn heldur einnig af eigin flokki. En, hann bjargaði sér fyrir horn, eygir enn draum sinn um frekari frama innan Framsóknarflokksins og virðist meta það meira en æruna!

Ég er ekki hissa á því að Sjálfstæðismenn séu ringlaðir og svekktir, framferði Björns Inga er auðvitað með ólíkindum. Björn Ingi tilkynnir sig "veikan" á meirihlutafund í dag og fundar í stað með gamla minnihlutanum LoL þetta er nú meiri farsinn.

Þetta er nú líka ekkert smá áfall fyrir Sjálfstæðismenn, eins og Björn Ingi sagði þá er klofningur innan þeirra raða upphafið og endirinn á þessu öllu saman. Sjálfstæðismenn hafa lengi vel gert mikið úr óeiningu meðal vinstrimanna og notað óspart sem grýlu í hverjum einustu kosningum. En það hlaut að koma að því að uppúr springi, það hefur lengi verið glíma milli frjálshyggju og félagshyggjuarms Sjálfstæðiflokksins, ágreiningur hefur grasserað undir niðri og jafnvel fyrir opnum tjöldum meðal SUS-ara. Frjálshyggjuarmurinn hefur orðið undir trekk í trekk síðustu ár, í Heimdalli hafa félagshyggjuöflin ráðið ríkjum  í nokkur ár og líklega hefur verið erfitt fyrir frjálshyggjuarminn að kyngja sigri Villa í prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar síðustu. Gísli Marteinn, Þorbjörg Helga og co. hafa setið á sér síðan þá en gátu ekki haldið í sér lengur, heimtuðu hugmyndafræðilegan viðsnúning, heimtuðu sölu - það er kominn tími á "menntaskólafrjálshyggjuna", eins og Dagur orðaði það Wink 

Þetta er góð lending, Villi farinn frá enda ekki vanþörf á. Skoðanakannanir bentu til þess að almenningur væri sama sinnis, eins og Dorfi komst svo skemmtilega að orði í vikunni:

"Það er ljóst að almenningur á 21. öldinni kann ekki að meta vinnubrögð 8. áratugs síðustu aldar. "Gamla góða" spillingarlyktin þykir ekkert skemmtilegri en "gamla góða" bræðslulyktin - hvort tveggja finnst flestum tilheyra löngu liðinni tíð."

Ja hérna :) nú get ég andað léttar, hagsmunir Reykvíkinga eru í góðum höndum :)


mbl.is Samkomulag um nýjan meirihluta handsalað klukkan 14
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífið er kvikmynd leikin af stjörnum, myndin er ekki ætluð börnum...

Úff þetta REI mál er með ólíkindum! Fréttir á rúv og Kastljós gerðu mig algjörlega kjaftstopp. Fyrir þá sem misstu af upprifjun Kastljóss á málinu bendi ég á mjög góða yfirferð Stefáns J Hafstein hér :)

Við í UJR ályktuðum um málið í dag:

Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík mótmæla flýtisölu á REI
Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík (UJR) furða sig á hringlandahætti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í málefnum Reykjavík Energy Invest. Telur UJR það afleita hugmynd borgarfulltrúa flokksins að selja beri hlut Orkuveitu Reykjavíkur í félaginu með flýti. Til þess eru engar málefnalegar ástæður og augljóst að með þessu er einungis verið að breiða yfir trúnaðarbrest innan meirihluta borgarstjórnar. Tímabært er að borgarstjórnarmeirihlutinn taki hagsmuni Reykvíkinga fram yfir eigin aðgerðaþörf til að koma á pólitískum friði í eigin herbúðum.

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur lagt áherslu á að borgin eigi ekki að koma að áhætturekstri með þátttöku sinni í Reykjavík Energy Invest.  Vill UJR minna á í því samhengi að REI var stofnað fyrir rúmu hálfu ári og var ljóst frá upphafi að því var ætlað að koma að útrásarstarfsemi. Ekki bar á hugmyndafræðilegum ágreiningi innan raða borgarfulltrúanna þá og kemur vandlæting þeirra á aðkomu borgarinnar að starfsemi fyrirtækisins nú undarlega fyrir sjónir.

UJR leggja áherslu á að yfirvöld fari sér að engu óðslega á komandi vikum og mánuðum og krefjast þess að hlutur Orkuveitunnar í Reykjavík Energy Invest verði ekki seldur með óðagoti.

Ungir jafnaðarmenn í Reykjavík hafa jafnframt alvarlegar athugasemdir við þau vinnubrögð sem viðhöfð voru við samruna Reykjavík Energy Invest við Geysir Green Energy. Ljóst er að lýðræðislegir stjórnarhættir voru hafðir að engu við ákvarðanatöku í málinu og að ekki eru öll kurl komin til grafar ennþá í því máli. Er sérstaklega vert að benda á mikilvægi þess að farið verði ítarlega yfir vafasamar ákvarðanir stjórnar REI um kaupréttarsamninga til handa ,,lykilstarfsmönnum”, sem virðast illa þola nánari skoðun.

Það hefur auðvitað ýmislegt komið í ljós síðan áðan og á örugglega fleira eftir að koma í ljós á borgarmálaráðsfundinum á morgun og verður eflaust komið efni í aðra ályktun þá! Ég ætla allaveganna að mæta á ráðhúspalla og fylgjast með :)


Skrautleg helgi að baki

Úff já, þessi helgi var vægast sagt skrautleg! Hún byrjaði á því að ég, mamma og Þórunn fórum á fundinn í Guðspekifélaginu sem við vorum búnar að bíða spenntar eftir, héldum að við værum búnar að finna þarna skemmtilegan vettvang til að ræða við annað fólk um andleg málefni. En ...neeei ...ég á ekki einu sinni til orði til að lýsa því sem þarna fór fram, þarna var erlendur fyrirlesari sem eyddi heilli klukkustund í að útskýra fyrir okkur að skynfærin væru takmörkuð og í raun værum við meira en það sem við sæjum með eigin augum og í speglinum ...þetta er held ég bara einn sá vandræðalegast klukkutími sem ég hef upplifað, við vorum allar þrjár að berjast við að missa okkur ekki í hláturskast, gátum ekki annað en tekið þátt í æfingum með pappaspjaldi með gati fyrir höfuðið á og litlum spegli í hægra horninu. Ég kemst allaveganna ekki í hálfkvist að lýsa þessu hér, en þegar fyrirlesturinn var á enda þá hlupum við út, rétt náðum að grípa jakkana okkar og stökkva yfir þröskuldinn áður en við sprungum úr hlátri og grenjuðum úr hlátri í svona hálftíma á eftir - hláturinn gerði þetta þess virði LoL

Svo var landsþing UJ um helgina, ég mætti á laugardeginum og tók þátt í mjög góðu málefnastarfi, þetta var skemmtilegt þing og skemmtilegur hópur sem verður stærri með hverju árinu sem líður Wink

Við fórum svo á Galíleó að borða, í partý á Hallveigarstíg og svo á Ölstofuna góðu þar sem skrallað var fram eftir nóttu Smile ég var vægast sagt mjög hress, gaman að kynnast nýjum UJ-urum og endurnýja kynni við gamla og góða.

En nú ætla ég að taka smá skrall pásu, það er kominn tími til að ég láti námið ganga fyrir, að ég fari að einbeita mér að því sem ég hef valið að gera í vetur! Næstu tvær vikur verður missjón nr. 1 að ná kennsluáætlun, ná takti!


Skemmtileg helgi framundan :)

Hæ elskurnar mínar Smile

Já ég veit, ég veit, þrátt fyrir stóru orðin í færslu nr. eitt á þessu bloggi þá hefur þetta verið algjört letiblogg hjá mér! En ástæðan er hreinlega sú að það eru miklir umbrotatímar hjá mér núna og ég hef bara ekki hugmynd um það hvort ég er að koma eða fara eða hver ég er yfir höfuð. Ég er búin að skrifa nokkrar færslur sem ekki hafa ratað inná bloggið heldur beint inn í dagbókina mína, aðeins of persónulegar fyrir alheimsnetið.

Sambandsslit kalla auðvitað alltaf á einhverja naflaskoðun, ég hef verið soldið í leit að gömlu Guðrúnu Birnu í þeirri vona að finna hina nýju mig :)
Ég er enn ekki alveg lent í húsnæðismálum, hef verið með athvarf hjá mömmu í Hafnarfirðinum en svíður hrikalega undan þeim tíma sem fer í akstur alla leið í Hafnarfjörð, þangað sem ég hef ekkert að sækja nema svefn.
Ég er farin að starfa á fullu í
UJ aftur, orðin varaformaður í UJR :) ....ohh það er eitthvað við fégasskap UJ sem fær mig alltaf til að líða vel - Þessir krakkar eru bara á sömu bylgjulengd og ég, er annt um samfélagið og vilja leggja sitt að mörkum til að gera lífið betra Grin 

Nú er landsþing UJ um helgina og hvet ég alla sem hafa áhuga til að skrá sig og taka þátt, þá sem hafa ekki kost á að vera alla helgina hvet ég til að koma kl. 14:30-16:30 á sunnudag, þar sem Ingibjörg Sólrún mun sitja fyrir svörum, Oddný Sturludóttir mun halda stutta tölu og kosið verður í framkvæmdastjórn UJ.  

Ég ætla að kíkja á spennandi fund hjá Guðspekifélaginu í kvöld sem ber yfirskriftina “Að uppgötva hver þú í rauninni ert". Ég veit í raun lítið um fyrirlesarann en það sem kemur fram á síðu Guðspekifélagsins vekur áhuga minn, hann virðist vera í svipuðum pælingum og Ekhart Tolle sem skrifaði meðal annars Mátturinn í núinu. Svo er hann með vinnu smiðju á laugardaginn þar sem hann notar æfingar sem byggja á búddakenningunum ZEN sem ég er mjög heilluð af.

En nóg um það, ég ætla að læra svolítið áður en ég kíki á fundinn í kvöld Wink vonast til að sjá sem flesta á landsþinginu um helgina!
Þið hin,

Lifið heil GB


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband